Kennarar vilja betri kjör, ég vil betri kennara
Ég hef sveiflast soldið á milli fylkinga hvað varðar kennaraverkfallið, það hefur farið soldið eftir því við hvern ég hef verið að ræða hverju sinni. Ég tel mig núna hafa komist að þeirri niðurstöðu að kennarar beri meiri samfélagslega ábyrgð en nokkur önnur stétt og að kröfurnar, sem gerðar eru til þeirra og launin sem þeir fá fyrir störf sín séu í fullkomnu ósamræmi við einmitt það.
Kennarar eiga hvað stærstan þátt í því að móta framtíð næstu kynslóða og sjá til þess að börn skilji umhverfið og læri að bregðast skynsamlega við öllu því hnitmiðaða áreiti, sem á þeim dynur úr öllum áttum. Með þetta í huga vil ég sjá kröfurnar, sem gerðar eru til nemenda í KHÍ auknar umtalsvert á öllum sviðum námsins. Þetta hefði án efa það í för með sér að meðaleinkunnir grunnskólabarna hækkuðu úr nákvæmlega 5.0* og upp í eitthvað, sem hæfir efnuðu upplýsingaþjóðfélagi eins og okkar, er það ekki annars hæfni kennara, sem hefur hvað mest áhrif á námsárangur barna? Ég hugsa að samfélagið í heild tæki mikið betur undir kröfur kennara um betri kjör ef börn væru að staðaldri betur undirbúin undir framhaldsmenntun 15 ára.
Það er eitthvað mikið að, þegar kennarar vilja fá áfallahjálp eftir verkfall, áfallahjálp sem ætluð er fólki sem lent hefur í hörmungum eða lífsháska. Ætli þetta segi okkur ekki mest um andlegt atgervi kennara og það álag sem þeir vinna undir, fólk sem þarf að vera nógu andlega stöðugt til að geta tryggt kyrrð, ró og sómasamlega kennslu í skólastofu nútímans. Það læðist nefnilega að mér sá grunur, að þetta stafi að miklu leiti af því að KHÍ útskrifar fólk í gríð og erg, almennt illa undirbúið fyrir kennarastarf í nútímasamfélagi, sem verður svo til þess að kennurum líður illa og börn koma illa undirbúin úr skólanum.
Það er ekki nóg að bera ábyrgð, það verður að standa undir henni líka.
* meðaltal í öllum greinum árið 2002, yfir landið allt, fengið héðan. Mér finnst þetta svo undarleg tala, akkúrat 5.0 í öllum greinum, að ég er farinn að halda að hún hljóti bara að vera tölfræðilega óhjákvæmileg, á einhvern hátt sem ég fæ ekki skilið að svo stöddu.
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home